Archive for Oddný

Da Vinci Code (Ron Howard: 2006)

Mig langar til að þakka Árni Svani fyrir boðið og skemmtilega innlýsingu á « The Da Vinci Code » sem ég var orðin spennt að sjá þrátt fyrir mjög dræmar viðtökur franskra gagnrýnenda. Ég er búin að lesa kvikmyndagagnrýnina sem stráfelldi myndina í Cannes og því undirbúin hinu versta – einn kvikmyndagagnrýnandi tekur svo til orða að þar sem myndin fari svo mikið eftir bókinni að « handritið gæti hafa verið skrifað í métro á milli Invalides og Durock ». Það er heldur ómaklegt, enda áðurnefndar stoppistöðvar einhvers staðar frá helvíti. Maður silast í gegn og er að drepast úr leiðindum. Read the rest of this entry »

Advertisements

Leave a Comment

Munich (Steven Spielberg: 2005)

Fór að sjá hina umtöluðu mynd Spielbergs, “Munich” og stóð upp að lokinni sýningu með blendnar tilfinningar. Myndin hreyfði mjög mikið við mér; hvert skot er nánast brennimerkt í huganum svo að Spielberg hefur náð að halda mér fanginni með magnaðri klippingu eins og honum er lagið. Það er athyglisvert hvernig hann tengir saman leikin skot og fréttaskot þegar skýrt var frá atburðunum á sínum tíma, en þá var ég í öruggum fasistaheimi General Francos á Spáni og fréttir voru vandlega ritskoðaðar. Myndin er listaverk frá fagurfræðilegum sjónarhóli, vinnubrögð Spielbergs koma ekki á óvart þar, leikmynd og búningar stórkostlega vel gerð og tímabilið hreinlega birtist á tjaldinu; París og Róm á áttunda áratugnum eru t.d. magnaðar.

Pólitískt séð er myndin viðkvæm og víða blikur á lofti að mínu mati. Þar kemur til að skáldsagan Vengence, sem myndir byggir á er etv. veikur hlekkur. Mér finnst ólíkindalegt að frönsk krimmafjölskylda, dálítið svipuð og í Godfather, hafi fundið mennina, sem báru ábyrgð á gíslatökunni, enda vissu flestir sem fylgdust með fréttum eftir harmleikinn hverjir þeir voru. Að vísu kemur “Pabbinn” sterkur út, enda leikinn frábærlega af Michael Lonsdale, og þeir Avner tengjast í gegnum matargerðarlistina sem er skemmtilega unnið.

Verst þótti mér að mistökin í Noregi hafi ekki verið tekin með í dæmið, þegar saklaus þjónn frá Marokkó var drepinn í misgripum fyrir Salameh, höfuðpaur Svarta september.

Annað atriði sem ég var mjög ósátt við var samfarasena Avners og konu hans stuttu fyrir lok myndarinnar þar sem ofbeldi og hryllingur harmleiksins í München er dreginn upp í montage parallèle (juxtaposition) við samfarir Avners. Ég geri mér grein fyrir því að þarna er maðurinn niðurbrotinn á taugum og virðist sjá atburðina innan frá eins og hann hafi verið einn af gíslunum og það hvílir svo þungt á honum að kynlíf og ofbeldið hrærist saman í freudískri klisju. En hann var ekki í München. Raunar er hann á leiðinni frá Ísrael snemma í myndinni þegar hann horfir í glugga flugvélar og sér þá atburðina líka “innan frá”. Ég geri mér mæta vel grein fyrir því hvað Spielberg er að gera með þessari aðferð og taka hana lengra; láta Avner vera svo heltekinn af atburðunum að það knúi hann áfram að leita hefnda en mér finnst það “overkill” og verkaði öfugt á mig.

Ég var heldur ekki hrifin af morðinu á konunni í húsbátnum; fannst það overkill líka. Á hinn bóginn sýnir það hvað langt Avner gengur í hlutverki sínu sem leigumorðingi og hryðjuverkamaður en hann endar sem slíkur; skörp skil verða í myndinni og andlegt niðurbrot fylgir í kjölfarið.

Það er athyglisvert að sjá sjónarmið Ísraela og Palestínumanna mætast í stigaganginum í Aþenu og mætti vera meira af slíku. Mér varð hugsað til gamals vinar sem er nýlega látinn, sem ég tók viðtal við fyrir bókina um Myriam Bat-Yosef, fyrrum eiginkonu Erros. Hann hafði misst alla ættingja sína í Auswitz, þar á meðal ófríska eiginkonu og tveggja ára dóttur en fluttist til Ísrael og stofnaði fjölskyldu. Hann sagði eitthvað á þessa leið að hatrið á milli þessara tveggja þjóða væri svo ofboðslegt að því mætti líkja við hatrinu á milli Ku Klux Klan-manna og þeldökkra í Suðurríkjum Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum.

Í lokin, þegar vitnað er í “E.T” með því að “yfirmaður” Avners frá Mossad í Ísrael biður hann um að koma heim sá ég ekki betur en að tvíburaturnarnir í New York væru í bakgrunni. Ég er ekki alveg viss hvort það er rétt. Ef svo er gefur það tilefni til annarra heilabrota.

Myndin skilur svo sannarlega mikið eftir sig og mér finnst ég þurfa að skoða hana aftur með tilliti til sálfræðilegra vangaveltna, þeas skoða hvernig Spielberg vinnur með hina sálfræðilegu hlið Avners og félaga hans en það týnist aðeins í ofbeldinu. Ég var hrifnust af eldri manninum, sem lagðist með hollenska morðkvendinu, en hann er með vangaveltur sem skipta verulegu máli og styrkja pólitísku hlið myndarinnar til muna. Til dæmis er hann efins um réttmæti verkefnisins þar sem engar beinar sannanir tengja mennina, sem á að drepa, við gíslatökuna og bendir þeim félögum á það. Hann myndar sterka andstæðu við Steve, sem vill ólmur drepa og er fremur flöt persóna. Hans er víðsýnn, hefur þurft að þola margt og persónan verður dýpri og hlýlegri fyrir vikið.

Af mörgum áhrifamiklum atriðum finnst mér hryðjuverkið í París, þegar litla stúlkan er að fara að svara í símann, óvenju vel heppnað. Það er svo sterkt að ég sé það enn fyrir mér.

Það hlýtur að vera óskadraumur hvers leikstjóra að áhorfandinn gangi út að lokinni mynd sem þessari þrekaður tilfinningalega og djúpt hugsandi um samskipti Ísraela og Palestínumanna. Ég gef aldrei stjörnur en þessi mynd er skylduáhorf.

Comments (3)